Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur í GF

5. bekkur
5. bekkur

Í gær, 16. nóvember, var Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur hér í skólanum. Við Norðurgötu komu nemendur saman á sal og hófu stundina með því að syngja saman Á íslensku má alltaf finna svar. Síðan var hver bekkur með atriði, 1. bekkur flutti talnaþulu, 2. bekkur fræddi um samheiti og andheiti, 3. bekkur las málshætti og 4. bekkur flutti ljóð. Stundinni lauk síðan á því að nemendur 5. bekkjar tóku þátt í Litlu upplestrarkeppninni. Þar lásu 14 nemendur texta upp úr bókinni Saga úr síldarfirði eftir Örlyg Kristfinnsson sem einmitt var einn af dómurum keppninnar ásamt, Guðnýju Róbertsdóttur, Guðrúnu Unnsteinsdóttur og Sigurbjörgu Bjarnadóttur. Nemendur stóðu sig allir með sóma og erfitt var fyrir dómnefnd að velja sigurvegara. Það fór svo að tveir nemendur fengu viðurkenningu,  Alexander Þór Þorsteinsson og Aþena Lilja Eyjólfsdóttir. Sjá myndir hér fyrir neðan.

Við Tjarnarstíginn var dagurinn líka í hávegum hafður. Nemendur miðstigs lásu ljóð í kór- og skiptilestri auk þess að fara í leikinn Orðarunu sem nemendur þekkja úr Kappsmáli. Nemendur unglingastigs voru í ljóðavinnu og ortu ljóð til að senda í hina árlegu ljóðasamkeppni grunnskólanema, Ljóðaflóð.

Að sjálfsögðu lásu allir nemendur skólans einnig í sínum yndislestrarbókum þennan dag eins og áður.