Viðbragðsáætlun gegn áföllum

Viðbragðsáætlun Grunnskóla Fjallabyggðar við áföllum

Símanúmer Grunnskóla Fjallabyggðar er 4649150.

 Í skólanum skal sitja viðbragðsteymi við áföllum. Hlutverk þess er að gera vinnuáætlun svo bregðast megi við á skjótan og öruggan hátt þegar áföll verða, svo sem bráð veikindi, alvarleg slys og dauðsföll.

Í viðbragðsteymi skólans sitja:

Skólastjóri, aðstoðarskólastjóri, námsráðgjafi, deildarstjóri og skólahjúkrunarfræðingur. Auk þess starfa umsjónarkennarar skólans, prestur og sálfræðingur með viðbragðsteymi áfalla eins og þurfa þykir.

Viðbrögð skólans við alvarlegu slysi:

 1. Tilkynna skal alvarleg slys í skóla til neyðarlínu í síma 112.
 2. Hafa skal strax samband við skólastjóra, aðstoðarskólastjóra eða deildarstjóra. Viðbragðsteymi  kallað saman ef nauðsyn þykir.
 3. Starfsmaður sem kemur að slysi skal skrá hjá sér þau vitni sem voru að slysinu og afhenda skólastjóra listann.
 4. Samskipti við foreldra er í höndum stjórnenda/námsráðgjafa sem njóta aðstoðar umsjónarkennara ef þurfa þykir.
 5. Samskipti við lögreglu og fjölmiðla eru í höndum skólastjóra.
 6. Ritari skólans fær upplýsingar og sér um að halda boðleiðum opnum.
 7. Tilkynning um slys getur farið fram á fundi starfsfólks og síðar nemenda eða eftir öðrum leiðum.

Viðbrögð skólans við dauðsfalli:

 1. Hefjist strax handa. Mikilvægt er að bregðast skjótt við því það er erfitt að leiðrétta sögusagnir eftir á.
 2. Skólastjóri fær staðfestingu á andláti hjá aðstandendum, lögreglu, sjúkrahúsi eða presti.
 3. Stjórnendur hafa samband við námsráðgjafa/umsjónarkennara til að annast persónuleg mál nemenda sem tengjast slysinu.
 4. Viðbragðsteymi skólans er kallað saman ef sá látni er nemandi skólans eða starfsmaður. Ráðið fer yfir verkaskiptingu og aðgerðir skólans.
 5. Samskipti við fjölskyldu þess látna (ef um nemanda er að ræða) eru í höndum skólastjórnenda/námsráðgjafa sem njóta aðstoðar umsjónarkennara ef þurfa þykir.
 6. Öll samskipti við lögreglu og fjölmiðla eru í höndum skólastjóra.
 7. Húsvörður flaggar fána skólans í hálfa stöng bæði að tilkynningu lokinni og á útfarardegi.
 8. Ef skólanum berst tilkynning er snertir nemanda skólans skal tilkynna sem fyrst viðbragðsteymi  skólans. Einnig skal skólastjóri/aðstoðarskólastjóri tilkynna starfsfólki sínu um atburðinn eins fljótt og auðið er.

Aðgerðaröð í áföllum:

Andlát nemanda:

 1. Skólastjóri/aðstoðarskólastjóri tilkynna viðbragðsteymi skólans um atburðinn.
 2. Skólastjóri kallar starfsfólk skólans saman og tilkynnir því hvað gerst hefur og hver viðbrögð skólans muni vera.
 3. Skólastjóri/aðstoðarskólastjóri/deildarstjóri, umsjónarkennari og námsráðgjafi segja nemendum frá atburði í skólastofu eða á sal. Gæta þarf þess að allir nemendur fái fregnina á svipuðum tíma. Gefa verður einstökum nemendum kost á að ræða um atburðinn og líðan sína.
 4. Skólastjóri/aðstoðarskólastjóri eða námsráðgjafi hefur samband við fjölskyldu hins látna sem fyrst (t.d. með heimsókn og/eða blómasendingu) og rætt um hvernig skólinn minnist hins látna.
 5. Samúðarkveðjur frá bekk og skóla.
 6. Minningarathöfn í kirkju í samráði við prest og fjölskyldu.
 7. Minningargrein birt í blaði sem kveðja frá skóla
 8. Á útfarardegi skal fella niður kennslu.
 9. Fylgjast vel með nemendum og leyfa þeim að tjá sig um fráfallið (áfallahjálp).

Andlát starfsmanns:

 1. Samstarfsmönnum tilkynnt sem fyrst um andlátið, því næst eru nemendur upplýstir.
 2. Samband haft við aðstandendur, t.d. með heimsókn og/eða blómasendingu.
 3. Fulltrúar skólans bjóði aðstoð við útfararundirbúning og útför.
 4. Minningarathöfn um hinn látna haldin í skólanum eða í kirkjunni fyrir nemendur.
 5. Samstarfsmenn sjái til þess að minningargrein eða kveðja birtist í blaði.
 6. Á útfarardegi skal fella niður kennslu.

Andlát nákomins ættingja nemanda (foreldris/systkinis eða annarra nátengdra ættingja):

 1. Gott væri ef ættingjar nemandans gætu upplýst skólastjóra/aðstoðarskólastjóra/deildarstjóra um missinn.
 2. Skólastjóri/aðstoðarskólastjóri/deildarstjóri tilkynnir viðbragðsteymi skólans og starfsfólki skólans um atburðinn.
 3. Skólastjóri/aðstoðarskólastjóri/deildarstjóri/námsráðgjafi og umsjónarkennari tilkynni í bekk viðkomandi nemanda hvað gerst hafi (eftir atvikum).
 4. Ef um foreldra- eða systkinamissi er að ræða þá er nemendanum færð blóm/minningargjöf frá skólafélögum/skóla.
 5. Kanna þarf vilja nemandans til frekari viðbragða og óskir hans virtar.

 Viðbrögð við grun um einelti

 Þegar grunur um einelti er tilkynntur til eineltisteymis skólans er farið eftir þessum vinnureglum:

Starfsmönnum eineltisteymis er gerð grein fyrir tilkynningu eða tilkynning berst teyminu beint. Teymið vinnur hratt og skoðar viðkomandi tilfelli samdægurs, í síðasta lagi næsta virkan dag. Fyrsta skref er að skoða málið með tilkynnanda og heyra hans frásögn. Eftir það er reynt að skoða málið frá öðrum sjónarhornum, t.d. með umsjónarkennara, öðrum kennurum eða skólaliðum.

Eftir þessi viðtöl/samtöl fer eftirfarandi ferli í gang.

1. Fulltrúar teymisins ræða við þann nemanda sem tilkynningin tengist og er reynt að gera það á skólatíma. Tilgangur þessa samtals er að ræða hvers eðlis eineltið er, hve lengi viðkomandi telur sig hafa verið lagðan í einelti og hverjir eigi í hlut. Í framhaldi af þessu samtali leggur teymið mat á upplýsingarnar og leggur á ráðin með næstu skref aðgerða. Foreldrar viðkomandi nemanda eru látnir vita af þessu viðtali með orðsendingu í gegnum Mentor. Ef umræddur nemandi er í yngri deild skólans er viðtalið tekið í samráði við foreldra hans og ef þurfa þykir eru foreldrar hafðir með í viðtalinu. Reynt er þó að komast hjá því eftir fremsta megni.

2. Næsta skref er samtal við geranda eða gerendur, ef þolandi getur bent á ákveðna einstaklinga. Foreldrar eru sömuleiðis látnir vita af þessum viðtölum með orðsendingu í gegnum Mentor. Ef gerandi/gerendur eru nemendur í yngri deild skólans er rætt við nemendur í samráði við foreldra þeirra. Gerendum er gerð grein fyrir alvarleika þess að leggja í einelti og eru hvattir til að láta af hegðun sem hefur framkallað vanlíðan hjá öðrum og svo framvegis. Ef ekki er hægt að benda á ákveðna einstaklinga er hugsanlegt að ræða við alla í bekknum í þeim tilgangi að kanna hvort fleirum líður illa eða finnist þeir verða fyrir einelti og hvort þeir hafa orðið varir við einelti. Samhliða er reynt að efla starf gegn einelti í bekknum á bekkjarfundum. Sú vinna er í höndum umsjónarkennara.

Oftast dugar aðgerðirnar sem hér hefur verið lýst. Eftirfylgni þarf að vera svo hægt sé að meta árangur. Stundum duga þessar aðgerðir ekki og þá er lagt á ráðin með frekari samtölum við þolendur og gerendur og foreldra þeirra sem eiga í hlut. Leiðirnar sem farnar eru fara eftir því hvers eðlis mál eru. Ef eineltisteymi hefur ítrekað unnið í máli án ásættanlegs árangurs getur það vísað málinu til nemendaverndarráðs.