Að læra ljóð utanbókar er góð þjálfun fyrir heilabúið

Ljóðasetur Íslands
Ljóðasetur Íslands
Nemendur í 2. og 3. bekk heimsóttu Ljóðasetur Íslands í gær og fengu góða fræðslu um ljóð. Við í Grunnskóla Fjallabyggðar viljum þakka fyrir góðar móttökur og gott samstarf síðustu ár. Þórarinn Hannesson birti eftirfarandi frétt á heimasíðu Ljóðaseturs Íslands:  
 
Það hljóp heldur betur á snærið hjá okkur í dag þegar tveir frábærir hópar úr Grunnskóla Fjallabyggðar komu í heimsókn.
 
Fyrst var það 2. bekkur sem sótti okkur heim og var þeim boðið upp á dagskrá þar sem áhersla var lögð á ljóð tengd árstíðunum, að ósk kennara þeirra. Var dagskráin með ýmsum ljóðum og lögum tengdum þemanu auk almennrar kynningar á ljóðforminu og íslensku bragfræðinni.
 
Svo kom 3. bekkur og fengu nemendur þess bekkjar svipaða fræðslu nema nú var þemað náttúruljóð með sérstakri áherslu á Fjallgönguna hans Tómasar Guðmundssonar (Urð og grjót, upp í mót...) sem nemendur bekkjarins eru að læra.
 
Frábærir hópar, báðir tveir, og gaman að heyra að nemendur eru að læra ljóð utanbókar sem er sérdeilis góð þjálfun fyrir heilabúið.
 
Í lok heimsóknanna voru allir leystir út með bókagjöf og brýningu um að vera dugleg að lesa því: Lestur er bestur!
 
Takk fyrir komuna!