Innleiðing heimalesturs á unglingastigi

Lestur er undirstaða alls
Lestur er undirstaða alls

Lestur er undirstaða alls” eru orð sem sögð eru í grunnskólum landsins. Það að lesa heima hefur tíðkast á yngsta- og miðstigi grunnskóla Fjallabyggðar en ekki á unglingastigi. Íslenskukennurum á unglingastigi þótti það ekki gott að þegar nemendur kæmu á unglingastig þá þyrftu þeir ekki að lesa heima. Því var tekin sú ákvörðun að innleiða heimalestur á unglingastigi, með aðeins öðruvísi sniði en á hinum stigunum. Venjan er að lesa á hverjum degi og foreldrar kvitta fyrir það, unglingarnir fengu þó annað kerfi utan um sig. Nemendur þurfa að lesa fjórar bækur yfir skólaárið og í stað þess að vera með kvittanahefti þá skilar nemandi til íslenskukennara bókadóm fyrir hverja bók.

Bókadómur segir þeim sem les hann um hvað bókin er þ.e.a.s. söguþráð, aðalpersónur, höfund bókar og margt fleira. Bókadómur er einnig fyrst og fremst leið til þess að gefa lesandanum færi á að tjá sig um bókina. Með þessu erum við að efla hæfnina að gagnrýna, túlka og meta íslenskar sem og erlendar bókmenntir. Til þess að koma til móts við tvítyngd börn ákváðu kennarar að leyfilegt væri að lesa tvær bækur á ensku og tvær á íslensku.

Innleiðingin fer vel af stað og má segja að gangi með ágætum. Bókadómar nemenda prýða veggi skólans eins og má sjá á ljósmyndum hér að neðan.

Höfundur fréttar: Hörður Ingi Kristjánsson leiðbeinandi/umsjónarkennari á unglingastigi.