Forritun fyrir alla!

Alþjóðlega Hour of Code (Klukkustund kóðunar) forritunarvikan verður haldin dagana 7. – 13. desember um heim allan. Markmiðið með átakinu er að hver og einn nemandi forriti í a.m.k. eina klukkustund. Átakið hefur náð til yfir 140 milljón þátttakenda í yfir 180 löndum.

Búið er að skrá Grunnskóla Fjallabyggðar til þátttöku og munu allir nemendur skólans taka þátt í forritunarvikunni. Kennsluefnið má m.a. finna á vefslóðinni https://hourofcode.com/us/is/learn .Boðið er upp á verkefni á íslensku en einnig má finna fullt af verkefnum á ensku sem og 43 öðrum tungumálum á vefsíðunni. Vefsíðan er mjög aðgengileg og einföld í notkun og því ættu nemendur að geta valið sér verkefni eftir aldri og áhugasviði og unnið jafnvel heima ef áhugi er fyrir því.

Einnig munum við notast við kennsluefni á heimasíðunni www.code.org

Kennarar í upplýsingamennt hafa ákveðið að tileinka sér forritun í heilan mánuð og desember varð fyrir valinu. Nemendur okkar hafa fengið að kynnast forritun á marga vegu eins og í gegnum Osmo-námsumhverfið, Micro:bit, Cue-vélmenni, Tynker, Scratch, Box Island, Run Marco, code.org og margt fleira. Þetta er mjög sjónrænt nám sem þroskar hugmyndaflugið og snýst um þjálfun í að hugsa rökrétt, setja sér markmið og vinna að þeim, rækta frumkvöðla- og nýsköpunareðlið og sýna frumkvæði. Þess vegna er mikilvægt að viðhalda þessari færni og þjálfun og gera hana skemmtilega.

Hér má sjá kynningarmyndband um Hour of Code.