Fuglaskoðun í 5. bekk

Farið var í stutta skoðunarferð sl. miðvikudag um Siglufjörð í þeim tilgangi að skoða vorfuglana. Krakkarnir mættu með kíkja og var nóg að sjá af fuglum á Langeyrinni. Æðarfugl fannst dauður á veginum sem hafði lent fyrir bíl, en það var líflegt í firðinum, lóuþrælar, tjaldar, skúfendur, toppendur, stokkendur, lóur og síðast en ekki síst var jaðrakaninn áberandi. Einn sást sem var með litamerki og var það mikill fengur fyrir krakkana, því að bekkurinn hefur verið að læra um þá og ferðir þeirra frá Írlandi til varpstöðva á Íslandi. Þau hafa líka ættleitt hvert sinn jaðrakan eins og mörg börn í Fjallabyggð hafa gert á undanförnum árum. Sá sem sást var merktur á Siglufirði í júlí árið 2012 og ættleiddur af nemanda sem nú er í 8. bekk.