Heimsókn frá Síldarminjasafninu

Í lestrarkennslunni í 1. bekk eru bækur mikilvægar, talað um efni þeirra og orð skoðuð og skrifuð. Börnin hafa nú undanfarið fylgst með honum Sigga sem er sögupersóna í bókinni "Saga úr síldarfirði" eftir Örlyg Kristfinnsson og Síldarminjasafnið gaf út fyrir nokkrum árum.  Þær Aníta og Steinunn frá Síldarminjasafninu komu í heimsókn í 1. bekk í síðustu viku og kynntu fyrir börnunum ýmis verkefni sem þær hafa nýverið  búið til og tengjast efni bókarinnar, spil og lestrarverkefni.  Þær hafa safnað saman ýmsum hlutum og fatnaði sem tengist síldarvinnunni og sett í gamla ferðatösku og geta skólar fengið efnið að láni.  Verkefnin verða einnig notuð í safnkennslunni hjá þeim, þegar hópar koma í heimsókn. Þær stöllur útbjuggu ennfremur heilmikið efni fyrir unglingastigið. Höfundur bókarinnar kom í heimsókn og spjallaði við krakkana, las úr bókinni fyrir krakkana og svaraði spurningum sem vöknuðu.